6.2.2009 | 13:23
Ég gef kost á mér í forvali VG í Norðausturkjördæmi
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2.-3. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í forvali flokksins í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar nú í vor.
Það er mín vissa að grunnatvinnuvegir þjóðarinnar sjávarútvegur og landbúnaður munu byggja grunninn að bætri framtíð Íslands ásamt vaxandi ferðaþjónustu. Skapa verður greinunum viðunandi starfsskilyrði til þess að þær megi nýtast til frekari verðmæta- og atvinnusköpunar.Huga þarf sérstaklega að landbúnaðinum þar sem hann á að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar.
Ég vil réttlátara þjóðfélag sem byggist á jafnrétti þegnanna óháð kyni eða búsetu, lýðræði, heiðarleika og sanngirni.
Það ófremdar ástand sem nú ríður yfir landið rekur mig til þessa framboðs. Ég á bágt með að horfa á af hliðarlínuni og vill gjarnan leggja mitt af mörkum til þess að endurreisa þjóðfélagið að nýju.
Ég er fæddur 1971, ólst upp í Kópavogi og stundaði íþróttir af kappi. Varð nokkrum sinnum Íslands- og bikarmeistari í blaki og var einnig í landliðinu um nokkurra ára skeið. Ég var snemma sendur í sveit í Eyjafjörðinn og heillaðist af sveitalífinu. Ég flutti norður 1996. Við hjónin hófum kúabúskap í Hléskógum árið 2000 og stunduðum kúabúskap til 2005 en þá söðluðum við um og erum nú með nautgripi, kindur, hross og ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan samanstendur af bændagistingu, tjaldstæði og húsdýragarði.
Ég er formaður Búkollu félags til verndar íslensku kýrinnar. Einnig hef ég setið í stjórn búgreinaráðs Búnaðarsambands Eyjafjarðar í nautgriparækt. Áður en ég hóf búskap hafði ég stundað ýmis störf svo sem í fiskvinnslu, sjómennsku og sem leiðbeinandi í leikskóla. Til gamans má geta að þegar við hjónin byrjuðum saman þá vann ég í leikskóla en hún var sjómaður.
Í dag er ég bóndi og stunda jafnframt nám við Háskólann á Akureyri í samfélags- og hagþróunarfræði á öðru ári. Eiginkona mín heitir Birna Kristín Friðriksdóttir og er grunnskólakennari að mennt. Hún vinnur við leikskólann á Grenivík. Við eigum þrjú börn sem eru sjö, fimm og þriggja ára.
6.2.2009 | 09:06
Skelfing valdaklíkunnar
Nú skjálfa gömlu valdhafarnir sem búnir voru að raða sínu fólki í hverja valdastöðu þjóðfélagsins. Hverja einustu mannabreytingu er hægt að kalla hreinsanir vegna þess hve margir á landinu sem gegna einhverju embætti hjá ríkinu er sjálfsstæðismaður.Þannig að ef einhverjum er skipt út þá er það mjög líklega sjálfstæðismaður.
Hreinsanir og ekki hreinsanir. Að sjálfsögðu verður að skipta um fólk einhversstaðar þegar kúvending verður á stefnu stjórnvalda. Margir þeir sem eru í hæstu embættunum eru innvinklaðir í spillingu fyrrum valdhafa og peningamanna og verða því að víkja. Einnig er alls óvíst að þeir allra heitustu vinni af fullum heilindum þegar stefna stjórnvalda stangast algerlega á við þeirra viðhorf.
Það er aumkunarvert að sjá Kjartan Gunnarsson sem stuðlað hefur að sjálfstæðisflokks ræði í samfélaginu vera að væla yfir þessu.
Pólitískar hreinsanir og ofsóknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.2.2009 | 15:21
Hver er á móti öllu núna?
Steingrímur J og VG hafa haft orð á sér fyrir að vera á móti öllu. En hver er á móti í dag? Mér sýnist að einhver mótþrói sé nú að hrjá Sjálfsstæðisflokkinn. Það er komið nýtt hljóð í skrokkinn. Nú fá áhangendur Sjálfsstæðisflokksins að sjá þingmenn sína í nýju ljósi og spurningin er hvort þingmennirnir líti jafn hetjulega út gagnvart áhangendum sínum og áður.
Steingrímur svaraði þeim af snilld og ég held að helsta meðferðarúrræðið fyrir valdhroka sjálfstæðismanna sé frí frá ríkistjórnarsetu.
Gagnrýna forsetaskipti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.2.2009 | 11:15
Hvaða lýðræði
Ég skildi mótmælin á Austurvelli þannig að ein helsta krafan væri bætt lýðræði á Íslandi. Nú kvaddi fyrverandi sjávarútvegsráðherra Einar K.Guðfinnsson embætti sitt með því að leyfa hvaðveiðar til næstu fimm ára. Er þetta ekki Sjálfstæðisflokkurinn í hvotskurn. Hugsa eingöngu um eigin hag.
Einar vissi upp á hár að þessi ákvörðun hans yrði að pólutísku bitbeini næstu ríkisstjórnar. Maðurinn tók þessa ákvörðun algerlega umboðslaus hvað þjóðina varðar. Ríkisstjórnin var að fara frá og var hann í reynd bara starfandi ráðherra án umboðs.
Eru þetta þau vinnubrögð sem við viljum sjá. Sjálfstæðisflokkurinn er búin að koma þjóðfélaginu á hvolf og kvaddi með þessari umdeildu framkvæmd en er samt orðinn stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Ef að þetta er vilji fólksins fer ég að efast stórlega um dómgreind og sjálfsbjargarvilja Íslendinga. Það er kanski ósangjarnt að segja Ílslendinga, frekar að segja þess hluta Íslendinga sem aðhyllast Sjálfstæðisflokkinn.
Ég vona að Steingrímur bíti ekki á agnið og afnemi leyfi til hvalveiða. Hann ætti frekar að fresta henni og láta næstu ríkisstjórn ráða úr málinu.
Í von um betri tíð og blóm í haga
Áfram Ísland
28.1.2009 | 21:49
Uppsagnir á Ríkisútvarpinu á Akureyri
Ég fór í viðtal á Ríkisútvarpinu á Akureyri fyrir þáttinn Ísland í nærmind í fyrradag. Viðtalið gekk vel og þegar það var búið nefndi ég það við konuna sem tók við mig viðtalið að það væri búið að segja Gesti Einari upp. Hún jánkaði því og sagðist sjálf bara eiga eftir að vinna í eina viku og þá væri hún líka hætt. Síðan benti hún í kringum sig og benti mér á fleira fólk sem búið var að segja upp.
Mikil gagnrýni varð þegar leggja átti svæðisstöðvarnar niður og var sú ákvörðun dregin til baka. En það hefur farið hljóðar að það er búið að segja mörgum starfsmönnum Ríkisútvarpsins upp fyrir norðan og á greinilega að draga þjónustuna mikið saman.
Það væri áhugavert að vita hvort hlutfallslega jafn mörgum er sagt upp fyrir sunnan hjá stofnuninni eða hvort niðurskurðurinn er meiri út á landi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2009 | 20:40
Vonandi verður Bjarni Ben formaður Sjálfsstæðisflokksins
Ég er nú að horfa á ÍNN þar sem Ingvi Hrafn og Bjarni Ben eru að ræða um þjóðmálin.Þarna sitja þeir sjálfsæðismennirnir og reyna að upphefja Bjarna og flokkinn. Það kemur mér á óvart hvað krónprinsinn er máttleisislegur og einstaklega ófrumlegur. En hann er greinilega vel upp alinn. Hann vill halda áfram þeim góðu verkum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir og á heiðurinn að .
Manninum er ekki sjálfrátt. Hann ætlar að bjóða sig fram til formanns flokksins. Hann virðist vera algerlega ótengdur við raunveruleikann. Maðurinn er nýbúinn að hætta stjórnarformennsku í risa fyrirtæki til þess að einbeita sér að pólitík. þetta segir hann búin að vera á alþingi í sex ár.
Hann er svo máttlaus að hann virðist eiga erfitt með að halda athygli Ingva þótt Ingvi sé með XD tattúað í heilann á sér. Vona að hann verði formaður og jarði þar með Sjálfstæðisflokksins.
27.1.2009 | 08:41
Að túlka málin sér í hag
Í síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins um vilja Íslendinga varðandi Evrópusambandið kemur fram að rétt tæplega 60% landsmanna eru andvíg aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Vonandi er fólk farið að gera sér grein fyrir því að Ísland er það ólíkt meginlandinu ekki er ráðlegt að steypa okkur í sama mót. Það er merkilegt að lesa útskýringar Evrópusinna á þessari skoðun landanns. Bent er á að fólk sé að einbeita sér að einhverju öðru en Evrópusambandinu þessa stundina og taki því ekki vitræna afstöðu, bent er á að umræðan sé ekki nógu góð. Sem betur fer eru Íslendingar að verða meðvitaðir um mikilvægi eigin sjálfsstæðis.
Nú er að harðna all verulega á dalnum um allan heim og spár virtra hagfræðinga og fleiri spekinga duga skammt þegar veröldin er að eiga við efnahagskrísu sem á sér ekkert fordæmi. Nú væri Íslendingum ráðlegast að þjappa sér saman og verða sjálfbjarga um allar helstu nauðsynjar. Ef við ættlum að auka matvælaframleiðsluna þá verður að hefjast handa strax því það tekur tíma að fjölga í dýrastofnunum.
Sem betur fer féll stjórnin og einhverjir með viti komnir að samningaborðinu um Icesave og edge reikningana. Það ætti öllum að vera ljóst að íslenskur almenningur getur og ætti ekki að borga þessa reikninga.
Baráttukveðjur
Áfram Ísland
26.1.2009 | 20:05
Ræða bónda á mótmælum
Bændur eru ekki undanskildir í því skelfingarástandi sem nú ríður yfir. Og erum við því nokkrir komnir hingað til þess að sýna hug okkar í verki.
Í mjólkurframleiðslu hefur mikil og dýr samþjöppun átt sér stað og því eru mörg þeirra 600 kúabúa sem eru á Íslandi því mjög skuldsett.
Sauðfjárræktin hefur um langan tíma verið skammtaðar smánar tekjur en þar innan um eru einnig bændur sem hafa verið að stækka og nútímavæða bú sín og skulda mikið.
Mörg þessara búa skulda í erlendri mynt og því hafa skuldir þeirra vaxið gríðarlega eftir hrun bankanna. Nú er því svo komið að um 40% þeirrar mjólkur sem framleidd er á Íslandi er framleidd á kúabúum sem eru við hættumörk eða eru orðin tæknilega gjaldþrota.
Það er auðsýnt að við þessar aðstæður verður ekki unað. Ef búgreinarnar eiga að geta haldið áfram eðlilegum rekstri og séð landinu fyrir jafn miklum hluta fæðunnar og hingað til verður ríkisvaldið að koma að málum með einhverjum hætti. Það væri ágætis byrjun að lækka vexti um svona 10-12 %.
Stór hluti bænda á ekki eftir að hafa efni á að kaupa sér áburð í vor. Það hefur þær afleiðingar í för með sér að það verður framleitt minna af landbúnaðarafurðum á næsta ári. Minni afurðir þýða minni atvinna, minna matvælaöryggi og neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn. Þetta eru blákaldar staðreyndir sem ríkisstjórnin horfist ekki í augu við. Það eina sem gert hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar hingað til er einhliða riftun búvörusamninga. Sú vísitölutenging sem voru í samningunum voru hámarkaðir við 5,7%. Það dugir skammt í 20% verðbólgu.
Það fáránlegasta við þetta allt saman er svo að eina hreyfingin á Alþingi nú varðandi landbúnaðarmál er að enn og aftur hefur hið umdeilda matvælafrumvarp verið lagt fram.
Ef þetta frumvarp nær fram að ganga verður leyfður innflutningur á hráu kjöti til Íslands. Slíkur innflutningur er stórhættulegur heilsu okkar sérstæðu dýrastofna. Hérlendis fyrirfinnast fáir af þeim dýrasjúkdómum sem herja á önnur lönd. Einangrun íslensku húsdýranna í 1100 ár gerir það að verkum að þau hafa enga mótstöðu gagnvart þessum sjúkdómum og farið gæti fyri þeim eins og indjánum Suður-Ameríku þegar hvíti maðurinn steig þar fæti og þeir stráféllu vegna innfluttra sjúkdóma. Ef skæður dýrasjúkdómur myndi herja á landið myndi það hafa skelfileg efnahagsleg áhrif í för með sér.
Annað mikilvægt atriði er markaðsvernd íslenskra búvara fyrir neytendur. Ég segi fyrir neytendur vegna þess að íslenskur landbúnaður er nauðsynlegur til að stuðla að matvælaöryggi fyrir íslenska þjóð og er atvinnuskapandi. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við búum á klettaeyju í miðju Atlandshafi og getum ekki leyft okkur að treysta eingöngu á innflutt matvæli. Ég minni bara á þegar Bónus auglýsti yfirvofandi vöruskort í haust seldust allar frystikistur upp og fólk fór að hamstra mat.
Þess má einnig geta hér að bæjarstjórn Akureyrar sem saman stendur af Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni, bæjarstjórn þessa mikla matvinnslubæjar skilaði ekki inn umsögn um frumvarpið og hefur ekki mótmælt því á nokkurn hátt. Þrátt fyrir að lögleiðing þess gæti haft afdrifarík áhrif á atvinnulífið á Akureyri.
Þegar bændur standa svo höllum fæti sem og samfélagið allt þá er matvælafrumvarpið eina framlag ríkisstjórnarinnar til málanna. Þeir hafa jú mælst til þess við bankanna að veita frest á afborgunum af lánum bænda en það er bara frestur, engin lausn. Ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar er því algert. Bágur efnahagur bænda er ekkert nýtt fyrirbæri. Framkoma ríkisvaldsins hefur verið með þeim hætti í garð sauðfjárbænda að nýliðun er nánast engin í greininni og meðalaldur sauðfjárbænda er kominn í 58 ár. Nútíma íslendingar sætta sig ekki við þau kjör sem sauðfjárbændum er boðið upp á. Mér er spurn er það virkilega ætlun ríkisvaldsins að ganga af þessari atvinnugrein dauðri.
Það er kannski ekki við miklu að búast þegar að Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur farið með völdin í þessu landi um langan tíma er haldinn það mikilli firringu að slagorð þeirra á heimasíðu flokksins er ennþá Nýir tímar á traustum grunni".
Helsta hlutverk ríkisstjórna er að skapa þegnum sínum öruggt og stöðugt umhverfi, skapa fjölskyldum sómasamleg lífsskilyrði. Hér hefur ríkisstjórn Íslands brugðist algerlega. Og komið er í ljós að hagsæld undanfarinna ára var blekkingin ein. Fjárhagslega öryggið var blekking og matvælaöryggi okkar er blekking.
Við framleiðum ekki nema tæplega helming þeirra matvæla sem við neytum. Ef að lokast myndi fyrir innflutning til Íslands af einhverjum ástæðum t.d. vegna farsótta eða efnahagslegs hruns, duga matvælabirgðir landsins ekki nema í tvo og hálfan mánuð. Og samkvæmt samtali mínu við starfsmann almannavarna tjáði hann mér að þeim tíma liðnum værum við búin að éta hreindýrin líka. Þessi tími er væntanlega mun styttri vegna þess að bændur myndu á einhverjum tímapunkti fara að hugsa meir um sitt nærumhverfi og hætta að láta afurðir frá sér.
Kannski er þetta dramatísk umræða en það þótti einnig dramatísk og kjánaleg umræða fyrir fáeinum mánuðum þegar rætt var um að hið íslenska bankakerfi stæði á brauðfótum. Ríkisstjórnin sagði alla kjána sem héldu því fram og eyddi skattfé okkar í að ferðast um heiminn til þess að sannfæra umheiminn um að hið íslenska efnahagsundur væri sko alls engin vitleysa. Kæru félagar við erum væntanlega sammála um að það er betra að búa við tryggt matvælaöryggi.
Það er hægt ef vilji er fyrir hendi.
Við landbúnað og afleidd störf af honum starfa um 10.000 manns, nánast eins margir og eru atvinnulausir um þessar mundir. Ef við tvöföldum framleiðsluna þá er hægt að búa til fjölda starfa.
Tökum grænmetisframleiðsluna sem dæmi. Við framleiðum um 40% af því grænmeti sem við neytum. Við þá framleiðslu starfa um 900 manns fyrir utan þau fjölmörgu afleiddu störf sem greinin skapar. Ef við ákveddum að tvöfalda þá framleiðslu gætum við búið til ámóta mörg störf til viðbótar. Þarna er til dæmis tækifæri fyrir Húsvíkinga að reisa sér vistvæna stóriðju.
Varðandi hinn hefðbundna landbúnað er aðstaða til aukinnar framleiðslu fyrir hendi, húsin eru til, jarðnæðið er til, kunnáttan er til og mannskapurinn er til. Eftir hverju í andskotanum erum við að bíða.
Ég legg til að hér segjum við stopp við vitleysunni og krefjumst þess að matvælafrumvarpið verði tekið af dagskrá, ríkisstjórnin segi strax af sér og boði til kosninga hið allra fyrsta.
Hefjumst strax handa við að byggja upp nýtt og betra samfélag.
Áfram Ísland!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.1.2009 | 11:58
Samgönguráðherra í kosningarbaráttu
Samfylkingin heldur fund um Evrópmál á Akureyri kl.17 í dag. Á þessum fundi verður samgönguráðherrann Kristján L. Möller fundarstjóri. Neró spilaði á hörpu á meðan Róm brann en Samgönguráðherra ríkisstjórnar Íslands er í kosningarbaráttu á meðan Ísland sekkur.
Þetta er dæmigert fyrir stjórnmálamenn þessa lands. Því er róið öllum árum að halda völdum, vinna fyrir flokkinn í stað þess að hugsa um almannahag. Og þvílík ósvífni að sýna sig á Akureyri þessum mikkla matvælaframleiðslubæ þegar ríkisstjórnin er nýbúin að leggja aftur fram matvælafrumvarpið.
Matvælafrumvarp sem ógnar heilu atvinnuvegunum og matvælaöryggi Íslands. Það þýðir varla að segja þessu fólki að skammast sín því sjálhverfan er svo mikil.
Höldum baráttunni áfram burt með stjórnina.
Áfram Ísland
22.1.2009 | 14:01
Bjarni Benediktsson næsti formaður Sjálfstæðisflokksins
Ef að sá orðrómur reynist sannur að Bjarni Ben muni taka við formennsku í Sjálfstæðisflokknum á komandi landsfundi er það ekki mikil andlitslyfting á flokknum. Þarna er þá að taka við erfðarprins einnar helstu valdaklíku ættar landsins. Það er kanski ágætt að Sjálfstæðisflokkurinn sýni bara áfram sitt rétta andlit. Andlit flokksræðis og valdaklíku spillingar.
Það er samt með ólíkindum að fjórðungur þjóðarinnar stiðji enn flokkinn. Sumir segja þetta trúarbrögð en ég heyrði aðeins betri skýringu um daginn. Þetta er eins og að halda með fótboltaliði. Maður heldur alltaf með sama fótboltaliðinu sama hvaða leikaðferð er spiluð og sama hver þjálfarinn er. Eins er þetta með sjálfstæðisflokkinn. Það skiptir engu máli hvað flokkurinn gerir eða gerir ekki sumt fólk myndi styðja flokkinn út fyrir gröf og dauða.
Við skulum vona að sem flestir jafni sig á þessum kvilla því að það er ábyrgðarhluti að kjósa.
Áfram Ísland