Fyrirlestur á landsbyggðin lifi

 Þau eru margskonar viðhorfin og það er alls ekki sjálfgefið að fólk láti sig umhverfið og náttúruna einhverju varða.

Því er eins farið með landbúnaðinn, viðhorfin eru margvísleg og það er heldur ekki sjálfgefið að fólk hafi það í huga þegar það tekur pylsurnar úr kælinum í Bónus að pylsurnar eiga sér langa sögu.

Það er búið að fjárfesta í vélum og tækjum, húsum og landi, bera á tún, slá gras, binda hey og keyra það heim. Kindur eru teknar á hús og fóðraðar allan veturinn. Um vorið fæðast lömbin og síðan er safnið rekið á fjall, sumarið líður og komið er að göngum. Það er réttað og rekið heim. Sláturhúsbíllinn kemur og keyrt er með féð í sláturhús, stundum landshorna á milli. Fénu er slátrað, kjötið er unnið og pylsupakkinn er keyrður í Bónus, bíllinn er aflestaður og þar er tekið við pylsupakkanum og hann settur í kælinn. Það kemur viðskiptavinur inn í búðina, tekur pylsupakkann úr kælinum og gengur að kassanum. Afgreiðslu stúlkan segir 550 krónur og viðskiptavinurinn ætlar ekki að trúa sýnum eigin eyrum 550 krónur, þvílíkt okur.

Við viljum að  fjölskyldubú prýði sveitir landsins. Við viljum að dýravernd sé í hávegum höfð. Við viljum að bændur hafi mannsæmandi tekjur. Við viljum hafa mikið vöruúrval og að ströngustu kröfum sé fylgt við matvælaframleiðslu. Við viljum matvælaöryggi og að matvaran kosti sem minnst.

En margt er skrýtið í kýrhausnum því allir eru óánægðir. Neytendum finnst matvaran of dýr, versluninni þykir hún fá of  lítið fyrir sinn snúð og bændum finnst þeir ekki hafa ásættanlegar tekjur.

Ef við lítum fram hjá því ófremdarástandi sem er í dag er hægt að segja að sauðfjárbúskapur sé gleymda búgreinin. Hún hefur á engan hátt náð að fylgja öðrum búgreinum eftir hvað tekjur varðar og ef litið er til búreikninga síðustu fjögurra ára er sauðfjárræktin rekin með tapi öll árin og það í sjálfu góðærinu. Greinin býr ekki við lífvænleg skilyrði og er endurnýjun ekki mikil. Meðalaldur sauðfjárbænda er kominn í 58 ár. Þetta er sérkennileg staða hjá grein sem hefur stærsta hlutdeild á sínum markaði. Um 30% af öllu kjöti sem landsmenn neyta er kindakjöt.

En þrátt fyrir ýmiskonar vandamál er mikil gróska í sveitum landsins. Í minni sveit hér úti í Grýtubakkahreppi eru 14 bæir í byggð og er þar stunduð ýmiskonar starfssemi. Þar er sauðfjár- og kúabúskapur, loðdýrarækt, hrossarækt, kartöflurækt, dúntekja, gistiheimili, minjasafn (gamli bærinn í Laufási), húsdýragarður, hestaleiga, heyskaparverktaka og bílaviðgerðir. Einnig sækja margir vinnu utan bús.

Eins og þessi upptalning ber með sér finna bændur sífellt fleiri leiðir sér til tekjuöflunar. Það var í fréttum nú í vikunni enn eitt dæmi um slíkt. Bændur í Hraungerði í Flóahreppi eru farnir af stað með tilraunarverkefni í að framleiða metangas úr kúamykju, sem bæði á að nota sem eldsneyti á vélar búsins og einnig til sölu út frá búinu. Það væri stór áfangi hvað varðar sjálfbærni landbúnaðarins og matvælaöryggi landins ef búvélarnar væru drifnar af heimagerðu eldsneyti. Í dag búum við í raun ekki við raunverulegt matvælaöryggi því við framleiðum ekki nema tæplega helming þess matar sem við neytum. Þessu væri auðveldlega hægt að kippa í liðinn ef vilji væri til þess.

Bygging áburðarverksmiðju væri góð byrjun og síðan gætum við ákveðið að framleiða sem mest af matvælunum sjálf í stað þess að flytja svo mikið inn. Í stað álvers á Húsavík sem kannski aldrei kemur, gætu Húsvíkingar stofnað vistvæna grænmetisstóriðju því að nú framleiðum við ekki nema 40%  af grænmetinu sjálf.

Áburðarframleiðsla á Íslandi yrði mun vistvænni en gengur og gerist erlendis þar sem olía er notuð við framleiðsluna og hefur því verið haldið fram að það eitt að framleiða allan þann köfnunarefnis áburð sem við notum jafngilti því að leggja 42.000 bílum miðað við meðal árs akstur bíla á Íslandi.

Síðustu áratugi hefur gríðarleg samþjöppun átt sér stað í landbúnaði. Nú eru á landinu um 600 kúabú og 2000 sauðfjárbú en eingöngu 400 sauðfjárbúana framleiða um helming alls kindakjötsins.

 Það kemur að því að þessari samþjöppun linni og búunum hættir að fækka. En hve mörg eða fá búin verða þá, er erfitt að spá fyrir um.

Ef  búin verða of fá getur komið að því að matvælaörygginu sé ógnað því ef skæður dýrasjúkdómur kæmi til landsins er betra að hafa búin dreifð um landið. Þá er hægt að loka þeim svæðum þar sem sjúkdómurinn kemur niður en halda óbreyttri framleiðslu áfram á hinum svæðunum.

Þrátt fyrir að búunum hafi fækkað, hefur framleiðslan ekki dregist saman. Búin eru að stækka. Og þá kemur að spurningunni hvort við viljum að landbúnaðurinn sé rekinn á fjölskyldubúum eða viljum við fara út í verksmiðjubúskap. Það þyrfti ekki nema 100 kúabú með 250 kýr að meðaltali til þess að uppfylla mjólkurþörf Íslendinga. Þessi bústærð er vel þekkt í Evrópu. Þess lags búskapur getur frekar komið til móts við neytendur varðandi lægra vöruverð en á móti vakna margar spurningar. Spuringar varðandi dýravernd, mengun, álagi á land og félagslegar breytingar.

Ég gerði litla rannsókn í haust um stöðu bænda í upphafi kreppunnar.

Ég get tekið tvö bú sem dæmi sem bæði eru með um 600 ær. Bændurnir sögðu þennan fjölda þurfa til að reksturinn gengi. En þrátt fyrir það vinnur annað hjónann á báðum búunum utan bús.

Ég spurði þetta fólk hve stórt búið ætti að vera þannig að þau gætu sinnt öllum þáttum eins vel og þau vildu og gætu haft frítíma sambærilegan og gengur og gerist hjá öðru fólki.

Ídeal bú þessa fólks hefur ekki nema milli 3-400 ær. Og sögðu þau vinnu við slíkt bú fulla vinnu fyrir tvær manneskjur, samt hafa þau um 600 ær og aðeins annar aðilinn sinnir búskapnum að fullu og hinn í íhlaupum. Þetta fólk er aldrei búið í vinnunni og hefur væntanlega alltaf á tilfinningunni að það sé ekki að gera hlutina nógu vel.

Ég var síðast í gær í rökræðum við mann sem fannst fáránlegt að menn væru að kvarta yfir því að geta ekki lifað af því að vera með 300 kinda bú, það væri engin vinna.

Hvers vegna þykir okkur það ekki mikil vinna? Er það vegna þess að þá eru bændurnir ekki kóf sveittir 10 til12 tíma hvern einasta dag.

Það er eins og hin hefðbundni landbúnaður sé á milli tveggja vita. Hið svokallaða fjölskyldubú nær ekki að sjá fyrir fjölskyldu og búin eru ekki það stór að þau geti nýtt sér kosti verksmiðjubús. Viljum við hafa þetta svona? Og ef ekki, hvernig þá?

Málefni dagsins í dag varðandi landbúnaðinn er að komast af og gæta þess að framleiðslan dragist ekki saman. Kreppan hefur komið illa niður á fjölda bænda og nú er því svo komið að 40%  mjólkurinnar er framleidd á búum sem eru við hættumörk eða eru tæknilega gjaldþrota.

Nú verðum við að hlú að þeirri atvinnu starfsemi sem er í gangi og reyna að efla hann til hins ítrasta. Landbúnaðurinn býður upp á mörg tækifæri. Við eigum mikið land, ónýtt gripahús, auk þess sem þekking og vinnuafl eru fyrir hendi. Við höfum markað til þess að nýta vöruna, markaðurinn eru Íslendingar sjálfir. Nú framleiðum við ekki nema helming þeirrar fæðu sem við neytum en höfum alla möguleika til að búa til þúsundir starfa ef við myndum bara ákveða að vera sjálfum okkur nóg um matvæli. Vilji er allt sem þarf.

Þegar við rísum upp aftur  er tækifæri að endurskipuleggja þjóðfélagið og gæta verður að því að bændur verði þar ekki undanskildir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband