Mínar aðaláherslur

Hér að neðan eru punktar sem ég notaði í þeim kynningum sem farið hafa fram á frambjóðendum í forvali VG á Norðausturlandi.

Komið þið sæl

Ég heiti Guðbergur Egill Eyjólfsson og er bóndi og nemi í samfélags- og hagþróunarfræði við Háskólann á Akureyri.

Ég gef kost á mér í 2.-3. sæti. Ástæða þess að ég legg í þessa baráttu er sú að ég vil leggja mitt af mörkum í endurreisn þjóðfélagsins og ég hef fulla trú á því að ég geti orðið að liði. Ég hef verið fyrirliði í landsliði Íslands í blaki, ég byggði upp eitt af stærstu kúabúum á landinu á fáum árum og við hjónin erum nú að byggja upp ferðaþjónustu þar sem við búum, ásamt því að reka þar hefðbundinn búskap. Ég er einnig í háskólanámi. Ég hræðist ekki að taka til hendinni og missi aldrei sjónar af markmiðum mínum. En ég veit að það verður að skapa góða liðsheild til þess að ná árangri.

Ég býð mig fram fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð vegna þess að stefna flokksins samræmist lífsskoðunum mínum um jafnrétti þegnanna og náttúruvernd. En það sem rekur mig af stað í þetta framboð er þó fyrst og fremst bág staða landbúnaðarins og matvælaframleiðslunnar í landinu og þar með matvælaöryggi þjóðarinnar. Ég vil efla matvælaframleiðsluna sem mest og hamla því ofurvaldi sem verslunin hefur á þeim geira. Ég hef þá vissu að þeir atvinnuvegir sem skapa raunveruleg verðmæti eins og landbúnaður, sjávarútvegur og ferðaþjónusta muni skipta sköpum við endurreisn þjóðfélagsins.

Málefni dagsins í dag varðandi landbúnaðinn er að komast af og gæta þess að framleiðslan dragist ekki saman. Kreppan hefur komið illa niður á fjölda bænda og nú er því svo komið að 40%  mjólkurinnar er framleidd á búum sem eru við efnahagsleg hættumörk eða eru orðin tæknilega gjaldþrota. Sauðfjárræktin hefur verið rekin með tapi í fleiri ár og það í miðju hinu svokallaða góðæri. Nú stefnir í að borið verði minna á tún sem þýðir bara minni framleiðslu og minni atvinnu.

Það þarf að beita öllum ráðum til þess að ekki komi bakslag í framleiðsluna. Ég tel öllu brýnna mál að byggja hér áburðaverksmiðju en til dæmis að fullklára tónlistarhús í Reykjarvík, þótt það sé eflaust verðugt verkefni  og  atvinnuskapandi.

Bær eins og Akureyri sem og landsbyggðin öll þrífst ekki nema matvælaframleiðslan sé að virka. Tveir af stærstu vinnustöðum Akureyrar eru matvinnslufyrirtækið Norðlenska og mjólkursamlagið. Nú er flutt inn kjöt sem aldrei fyrr og er því nú svo komið að farnar eru að myndast birgðir af íslenskum kjúklingi og svínabændur eru að reyna að selja kjöt til Rússlands. Það er hálf öfugsnúið að við flytjum inn svínakjöt erlendis frá en ætlum síðan að flytja svínakjöt út.  Væri ekki nær að borða það kjöt sem við framleiðum sjálf í stað þess að flytja matinn heimshorna á milli með tilheyrandi mengun og tilkostnaði. Þetta leiðir til samdráttar í innlenndu framleiðslunni og fólk missir vinnuna.

Nú verðum við að hlúa að þeirri atvinnustarfsemi sem er í gangi og reyna að efla hana til hins ýtrasta. Landbúnaðurinn býður upp á mörg tækifæri. Við eigum mikið land, ónýtt gripahús, auk þess sem þekking og vinnuafl eru fyrir hendi. Við höfum markað til þess að nýta vöruna, markaðurinn eru Íslendingar sjálfir. Nú framleiðum við ekki nema helming þeirrar fæðu sem við neytum en höfum alla möguleika til að búa til þúsundir starfa ef við myndum bara ákveða að vera sjálfum okkur nóg um matvæli. Vilji er allt sem þarf.

Húsvíkingar bíða eftir stóriðju. Við framleiðum ekki nema 40%  af grænmetinu sem neytt er á Íslandi, við það vinna um 900 manns. Hvers vegna ekki að koma á fót grænmetisstóriðju á Húsavík. Markaðurinn fyrir þá vöru er til hér á Íslandi. Ef við tvöföldum grænmetisframleiðsluna skapast hundruð starfa. Einnig eru miklir möguleikar á Suðurlandi hvað kornrækt varðar.

Ég hef hér nær eingöngu talað um landbúnað en það þýðir ekki að ég vilji ekki leggja mitt af mörkum til að koma í veg fyrir gjaldþrot heimila og fyrirtækja, bæta velferðarþjónustuna og efla menntun. Þvert á móti en vandi landbúnaðarins það mikill en einnig tækifærin, sem hann getur boðið upp á fyrir land og þjóð, það mörg að það eitt að sinna því er miklu meira en einn maður kemst yfir. Þessi málaflokkur  hefur verið afskiptur að mínu mati og því legg ég megin áherslu á þennan málaflokk, enda er ekki bara landbúnaðurinn og matvælaframleiðslan sem atvinnugreinar undir, heldur einnig matvælaöryggi þjóðarinnar.

Ég hef reynslu úr félsgstarfi bænda, félagstarfi íþróttahreyfingarinnar og úr atvinnulífinu sem atvinnurekandi eigin fyrirtækis. Ég hef ekki starfað í formlegu pólitísku starfi og hef ekki haft nein tengsl inn í pólitíska flokka en svara með þáttöku í þessu forvali, ákalli almennings um nýliðun í pólitík.

Ég vona svo sannarlega að mér verði veitt brautargengi í þessu forvali svo að ég geti ljáð landsbyggðinni og  Íslandi öllu starfskrafta mína að fullu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Indriði H. Indriðason

Ég vil vekja athygli á vefsíðu, www.profkjor.politicaldata.org, sem er nýstofnsett. Tilgangur vefsíðunnar er að skapa vettvang þar sem kjósendur geta nálgast upplýsingar um frambjóðendur og stefnumál þeirra auk annarra upplýsinga tengdum prófkjörunum/forvölunum. Vefsíðan er opin frambjóðendum allra flokka í öllum kjördæmum en það er undir frambjóðendunum sjálfum komið að færa inn upplýsingar um sig og stefnumál sín. Ef frambjóðendur kjósa eru færslur af þeirra eigin bloggum birtar sjálfkrafa á vefsíðunni. Það gefur t.d. kjósendum möguleika á að skoða bloggfærslur allra frambjóðenda flokksins í tilteknu kjördæmi – og jafnvel takmarkað við tiltekið sæti á listanum – á einum stað. Það er von okkar að vefsíðan efli pólitíska umræðu og gefi kjósendum aukið færi á að taka málefnalega afstöðu.

Frambjóðendur geta skráð sig hér: http://www.profkjor.politicaldata.org/wp-login.php?action=register

Indriði H. Indriðason, 3.3.2009 kl. 02:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband