Á ég að kjósa XD

Það er ábyrgðarhluti að kjósa í Alþingiskosningum. Þess vegna ætla ég tímanlega að hugleiða vel alla þá kosti sem eru í boði. Ég ætla að kanna alla kostina og byrja hér með á Sjálfstæðisflokknum.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur flokka á Íslandi og sá flokkur sem lengst hefur verið við stjórnvölin frá lýðveldisstofnun. Ísland er eitt ríkasta land í heimi svo eitthvað hljóta þeir að hafa gert rétt.

Það er spurning í sjálfu sér hvort Marshall aðstoðin hefði verið jafn öflug ef vinstri stjórn hefði verið við völd en herinn hefði væntanlega byggt flugvelli, vegi og borgað laun í peningum, síldin hefði gefið jafn mikið, Þorskurinn líka en varla hefðum við tekið stóryðjuna jafn hraustlega inn og minni eða engin hefði orðið útrásin né þá heldur jafn ægilegt hrun.

Þarna þarf maður að fara að hugsa helling.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa reyndu fólki og flest allt hámenntað. Lofar góðu. En. Margt af því fólki sem setið hefur á Alþingi fyrir flokkinn hefur verið spillt, uppvíst af því að brjóta lög og dæmi um að menn hafi setið í fangelsi fyrir þjófnað á opinberu fé en samt verið kosið áfram til trúnaðarstarfa fyrir flokkinn. Flokkurinn og einstaka þingmenn hafa þegið háar fjárhæðir í mútur frá hagsmunaaðilum og það þykir ekkert tiltökumál. Sagt flest allt vera löglegt.

Það þarf aðeins að hugsa um þetta.

Flokkurinn vill frelsi í viðskiptum, að einstaklingurinn fái að njóta sýn. Fallegt. Spurningin er hvort flokkurinn starfi í þessum anda. Kárahnjúkavirkjun er til að mynda stærsta ríkisframkvæmd Íslandssögunnar.
Frelsi er svakalega jákvætt orð og maður á erfitt með að gagrýna það. En hvað um það þegar frelsi eins fer að hefta frelsi annarra. Einfalt dæmi er um frelsi til þess að keyra eins hratt og maður vill þá stofnar maður öðrum í hættu. Er þessu ekki eins farið í viðskiptum. Ég veit ekki vetur en frelsi nokkurra útrásarvíkinga til þess að stofna Ice Save hafi heft frelsi ansi margra annarra. Frelsi til þess að selja kvóta frá sjávarþorpum er ekkert voðalega vinsælt nema hjá þeim sem selur....og kaupir en kannski ekki jafn vinsælt hjá þeim sem viðskiptin bitna á, íbúum þorpanna.
Það er spurning um hvaða einstaklinga skuli njóta sýn. Alla vega ekki allir. Þyrfti að skilgreina aðeins betur kannski.

Þarf að pæla í þessu.

Flokkurinn vill koma hjólum atvinnulífsins í gang. Gott og  blessað, hver vill það ekki. Sjálfstæðisflokkurinn vill auka erlenda fjárfestingu og nýta auðlyndir landsins. Fjárfestin er nauðsynleg ef bæta við atvinnulífið og Sjálfstæðisflokkurinn er til í að selja 3% landsins á einu bretti, leggja raflínur þvert yfir hálendið,  virkja nær allt sem hægt er að virkja til þess að selja erlendum stórfyrirtækjum raforku, leggja sæstreng til Evrópu til þess að Ísland og Evrópa verði að sama markaðsvæði í raforku, byggja að minnsta kosti tvö álver til viðbótar, byggja olíuhreynsistöð, heimila einkaher að æfa sig hérlendis og selja heilbrigðisþjónustu til ríkra útlendinga. Ekki vantar hugmyndirnar.

Hugsa aðeins um þetta.

Sjálfstæðisflokkurinn vill sem minns afskipti ríkisins og vill því einkavæða sem mest af starfssemi ríkisins. Það er best að hafa þetta allt saman á "frjálsum" markaði, hagkvæmast fyrir alla. Kannski.
Sjálfstæðisflokkurinn einkavæddi bankana og eru menn ekki meira ósammála um að það hafi verið rétt ákvörðun að "vinstri" stjórnin hefur einkavætt þá aftur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stuðlað að einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni og fá margir læknar laun bæði af einkastofum og ríkinu en það er allt í lagi. Tannlækningar eru einkareknar á Íslandi og börnin okkar með einna verst hirtu tennur í Evrópu en reksturinn gengur vel.
Reykjanesbær hefur fylgt þessari stefnu Sjálfstæðisflokksins út í æsar og er nú að ná að borga upp skuldir sýnar vegna einkavæðingar með sölu eigna þannig að dæmið er að ganga upp þar. Alveg að verða skuldlausir eins og Ísland var korteri fyrir hrun.

Pælum í þessu.

Sjálfstæðisflokkurinn vill vera í Nato. Varnarbandalagi þeirra sem voru á móti Sovét í denn. Nú er enginn lengur hræddur við Sovétið enda ekki til lengur og þess vegna hefur Nato tekið til við að frelsa austurlönd og Sjálfstæðisflokkurinn styður það ætíð enda sammála því að frelsa austurlandabúa svo þeir fái nú að njóta sýn sem einstaklingar.

Hellingur að hugsa um.

Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki inn í ESB. Formaðurinn vildi það....kannski en er búinn að skipta um skoðun. Hann vildi Evru en vill það held ég ekki núna. En XD vill ekki inn í ESB. Það er á hreinu. Held ég. kannski.

Ég þarf ekkert að hugsa um þetta.

Jæja þá er að ákveða sig.......................þetta verður erfitt.

Gæti varla verið vissari um hvað ég ætla ekki að kjósa.

Ég vil ekki kjósa flokk sem inniheldur spillta þingmenn með siðferðisbrest. Flokk sem vill fórna náttúru Íslands fyrir skammtímagróða. Vill ekki kjósa flokk sem setur auðvaldið framar fólkinu í landinu. Vill ekki kjósa flokk sem leyfir fólki að kaupa sig fram fyrir röðina í heilbrigðiskerfinu. Vill ekki flokk sem styður árásarstríð. Vill ekki kjósa flokk sem lætur foreldra veikra barna þurfa að betla. Vill ekki flokk sem er svo grunnhygginn að hann ætli að halda sömu stefnu og nú þegar hefur siglt í strand.

 

 


Veik börn

Ég verð ekki oft reiður en það varð ég í gær. Bjöllunni var dinglað hér heima í gær og stóðu þar fyrir utan þrjár ungar stúlkur sem voru að safna pening fyrir veikt ungabar sem er frændi einnar þeirrar. Að sjálfsögðu gáfum við peninga til hjálpar en ofboðslega kurraði í mér þegar þær voru farnar.

Að raunveruleikinn sé þanni hjá einni ríkustu þjóð heims að fólk þurfi að leita eftir ölmusu ef það lendir í þeim harmleik að eignast veikt barn. Þetta er algerlega óþolandi, hlustandi á ofurlaun slitastjórna og algerann aumingjaskap stjórnmálastéttarinnar í að byggja okkur sanngjarnara samfélag. Ég segi bara svei ykkur. Og þið sem styðjið þessa flokka sem viðhalda kerfinu, farið þið nú að hugsa ykkur alvarlega um.

Það er ábyrgðarhluti að kjósa.


Hagur hverra?

Allir vernda eigin hagsmuni og þegar talað er um hagsmuni fólks er ekki alltaf á hreinu um hvaða fólk er verið að tala um. David Miliband fyrverandi utanríkisráðherra Bretlands talar um að hagsmunum Evrópusambandsins yrði best borgið með meiri samruna ríkjanna innan sambandsins.

Vandamálið væri að pólitíkin stæði í vegi fyrir meiri efnahagslegum samruna. Ég túlka þetta þannig að þeir sem fara með völdin í viðskiptalífinu vilji meiri samruna og meira valdaafsal ríkjanna og þar með þegna aðildarlandanna til stofnanna ESB. Þar með er verið að færa völd frá þjóðkjörnum fulltrúum yfir til embættismanna sem valdir eru til starfa af elítunni. Það á að fara sömu leið og á Íslandi fyrir hrun, að færa völd frá þjóðkjörnum fulltrúum yfir til viðskiptalífs og embættismanna.

Hagsmuni hverra er verið að verja, fjármagnseigenda eða almennings. Í mínum huga er það ekki spurning, það er verið að verja þá ríkustu á kostnað almennings.

Þegar ég var að velta þessu fyrir mér datt mér í hug viðtal á RUV um daginn þar sem verið var að spyrja ónefndann hagfræðing út í gjaldeyrishöftin. Sagði hann þau hin mesta skaðvald, heftandi fjármagnsflæði og þess háttar. Mér að óvörum spurði fréttamaðurinn gagnrýnnar spurningar, sem gerist ekki oft, sem var á þá leið hvort gjaldeyrishöftin væru slæm fyrir almenning í landinu. Það var eins og hagfræðningurinn skipti um gír því nú svaraði hann að gjaldeyrishöftin væru lífsnauðsynleg fyrir almenning í landinu vegna þess að þau héldu gengi krónunnar nokkuð stöðugu og kæmu í veg fyrir verðbólgu.

Það er kominn tími á að setja hagsmuni almennings ofar hagsmunum fjármálaelítunnar.


Brynjar Níelson í vitlausum flokki.

Nú ætlar einn af helstu varðhundum gamla Íslands að bjóða sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Það sem helst vekur athygli mína eru þau mál sem Brynjar setur á oddinn.

"Þótt ég hafi ekki áður komið að pólitísku starfi innan Sjálfstæðisflokksins hafa skoðanir mína og flokksins jafnan farið saman í meginatriðum og mér er hugleikin baráttan fyrir réttarríkinu, frelsi einstaklingsins til orða og athafna, sem og hið opna frjálsa þjóðfélag. Að þessum grunnstoðum borgaralegs samfélags er vegið freklega nú á tímum."

Sjálfstæðisflokkurinn hefur byggt upp "réttarríkið" Ísland þar sem flokksgæðingar komast í stöður dómara og flokksgæðingar eins og Baldur greyið Guðlaugsson klaufast til þess að láta dæma sig er tekið með silkihönskum á meðan búðahnupplurum og göturæningjum er refsað af hörku.

Frelsi einstaklingsins eru settar skorður í stéttarskiptingu þar sem kostnaður einstaklinga til náms og heilsugæslu verður æ meiri og frelsi einstaklinga er njörvað niður í fátækt og umkomuleysi.

Hinu opna þjóðfélagi er stjórnað af fámennri elítu sem flokkurinn hefur valið til auðs og valda sem heldur aftur af frelsi hins almenna borgara.

Brynjar er þó í réttum flokki ef hann vill viðhalda óréttlætinu og halda bæði auð og völdum hjá sér og sínum líkum sem einokað hafa íslenskt samfélag frá lýðveldisstofnun.


Varðhundar klíkusamfélagsins

Hin óútkomna skýrsla ríkisendurskoðunar er á allra vörum þessa dagana og hefur Kastljósið leitt umræðuna með afgerandi hætti. Í kastljósinu í gær komu tveir þingmenn í viðtal Margrét Tryggvadóttir og síðan gengt henni sjálfstæðismaðurinn Kristján Þór Júlíusson. Ekki var þetta samtal þeirra upp á marga fiska en það sem vakti helst athygli mína var að Kristján virtist hafa það helst að markmiði að gera lítið úr venslum og tengslum þeirra sem að málinu komu og gekk meira að segja svo langt að reyna að taka á sig sök með þvi að segja að Alþingi hefði átt að standa sig betur í málinu.

Kristjáni virtist vera mest í mun að hrófla sem minnst við vinnubrögðunum, því skipulagi sem viðhaft er í útboðum ríkissins. Fyrir utan að koma sökinni á núverandi ríkisstjórn.

Að mínu viti hafa í raun allir þeir sem komið hafa að málinu brugðist, fyrst þeir sem sáu um útboðið hjá ríkinu, Alþingi að skapa ekki betri regluramma og eftirfylgni með málinu, hvort sem það er fyrverandi eða núverandi ríkisstjórn.

Þetta er fjórflokkurinn í hnotskurn.


Sigmundur vs Höskuldur

Nú eru tveir miðaldra karlar í afdönkuðum hel spiltum stjórnmálaflokki að fara að rífast um ekki neitt í komandi prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðaustur kjördæmi. Báðir eru þeir vel upp aldir í hagsmunagæslu flokksins og engu mun skipta hvor þeirra vinnur. Sigurvegarinn mun halda áfram í hagsmunagæslunni og að sjá fyrverandi flokksfélögum sínum fyrir vænu lífsviðurværi þegar opinberi stórnmálaþátttöku líkur.

Spennandi verður nú að vita hvaða bittlinga Sif og Birkir jón munu bjóðast þegar þau láta af þingmennsku.


Á ekki bara við um bændur

Sveitarstjórnarmenn alls staðar af landinu er boðið til Brussel og þetta á einnig við um þingmennina. Öllum þingmönnum stendur til boða tveggja vikna ferð til Brussel í heilaþvott.

Ég bý í Grýtubakkahreppi við utan verðann Eyjafjörð í þrjú hundruð manna samfélagi og úr þessum litla hrepp er búið að bjóða út, og þeir eru búnir að fara, tveimur af  fimm sveitarstjórnarmönnum.


Landið eitt kjördæmi, landsbyggðinni til heilla?


 

 Nú liggur fyrir Alþingi Íslendinga frumvarp til laga um að gera landið að einu kjördæmi. Eru þeir kostir helst nefndir til sögunnar í greinargerð er fylgir frumvarpinu:“1.      Fullkominn jöfnuður næst milli kjósenda og misvægi atkvæða er ekki lengur til staðar.2.      Stjórnmálaflokkar fá þann þingmannafjölda sem atkvæði þeim greidd segja til um.3.      Þingmenn hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi í störfum sínum en ekki þröng kjördæmasjónarmið.4.      Kosningarkerfið er einfalt og auðskilið.“ (Þingskjal 809,  2009-2010).


Flutningsmenn frumvarpsins reyna að gera grein fyrir væntanlegri gagnrýni á eftir farandi hátt. „Þeir gallar sem nefndir hafa verið á því að landið verði eitt kjördæmi eru þeir helstir að þingmenn verði of fjarri kjósendum sínum samfara minnkandi áhrifum dreifbýlisins hvað fjölda þingmanna varðar“ (Þingskjal 809,  2009-2010). Þarna gera flutningsmennirnir strax ráð fyrir minnkandi hlut dreifbýlisþingmanna ef frumvarpið nær fram að ganga. „Flutningsmenn benda hins vegar á að vilji stjórnmálaflokkar sækja kjörfylgi vítt og breitt um landið leggja þeir framboðslista sína vitaskuld fram á þann veg að þar verði góð breidd fulltrúa þéttbýlis og dreifbýlis“ (Þingskjal 809, 2009-2010). Með þessari athugasemd er skírskotað til vilja stjórnmálaflokka og þeim boðin sú ábyrgð að ákveða sjálfir hvort þeir tefli fram fólki af fámennum svæðum í stað þess að tefla fram fólki eingöngu úr þéttbýli  þar sem atkvæðamagnið er.

En flutningsmenn bjóða upp á mögulega leið til þess að koma í veg fyrir algjöra einokun þéttbýlisins. „Til að tryggja virkt lýðræði við val fulltrúa flokkanna á framboðslistum kemur einnig til álita að í kosningalög yrðu fest ákvæði í þá veru. Má þar nefna ákvæði um persónukjör, prófkjör stjórnmálaflokka, auknar heimildir kjósenda við endurröðun frambjóðenda á framboðslistum og að vægi þeirra breytinga yrði aukið umtalsvert, hugsanlegt frelsi kjósenda til að velja einstaklinga á fleiri en einum framboðslista og fleiri skyld atriði. Ekki er með frumvarpi þessu tekin afstaða til þess hvernig aukin áhrif kjósenda á framboðslista og aukið persónuval í kosningum verða tryggð í kosningalögum. Þau álitaefni ber að fara yfir og ákvarða við nauðsynlega endurskoðun kosningalaga verði frumvarp þetta samþykkt“ (Þingskjal 809, 2009-2010).
Það er álitamál hvort þessi úrræði um virkt lýðræði myndu koma til með að tryggja ákveðinn fjölda landsbyggðarþingmanna. Ef fest væri í lög að ákveðið hlutfall framboðslista þyrfti að dreifast með einhverjum hætti um landið þá væri í raun verið að búa til ný kjördæmi sem væri síðan enn og aftur hróflað við ef meira frelsi yrði veitt í átt til persónukjörs þar sem kjósendur gætu raðað frambjóðendum eftir sínum hag á listann við kosningar. Gætu til að mynda valið alla landsbyggðarþingmenn af listunum. 


Þarna er mörgum spurningum ósvarað enn. En það er ljóst að þeir sem flytja frumvarpið telja að með ákveðinni svæðisbundinni kjördæmaskipan sé hætta á því að þingmenn verji sitt svæði öðrum fremur hvort sem það er kallað sérhagsmunapot eða svæðisbundin hagsmunagæsla. Þetta er undirstrikað með enn einni athugasemdinni í þá áttina. „Núverandi skipan mála þykir draga úr samkennd þjóðfélagsins og styðja gæslu sérhagsmuna á kostnað  heildarhagsmuna. Með því að gera landið að einu kjördæmi næst fullkominn jöfnuður milli kjósenda þannig að misvægi atkvæða og um leið mannréttinda er ekki lengur til staðar“ (Þingskjal, 2009-2010). Hér vaknar enn ein spurningin um hvort heldur er lýðræðislegra að meirihluti landsmanna sem býr á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni séu ráðandi afl í samfélaginu í krafti stærðar sinnar eða að vægi fjölbreytileikans fái að ráða með jafnara vægi valdsins dreift um allt land. Annað er að það er landsbyggðin sem hefur átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum sem segir kannski að hagsmunagæsla landsbyggðarinnar hafi ekki verið nógu öflug. Kannski hefur hið svo kallaða kjördæmapot ekki verið nógu kröftugt.


Þess ber síðan að geta að fyrsti fluttningsmaður frumvarpsins er Björgvin G. Sigurðsson. Maður sem hefur það markmið helst að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Ef honum tækist það þá hlýtur það að verða hans fyrsta verk að berjast fyrir jöfnu vægi atkvæða innan Evrópusambandsins til þess að auka samkennd innan sambandsins og koma í veg fyrir allt svæðisbundið sérhagsmunapot.
Guðbergur Egill Eyjólfsson.

Vinstri hvað?

Ég er einn af þeim sem kaus VG í síðustu Alþingis kosningum, Var flokksbundinn til margra ára en hef nú sagt mig úr flokknum. Ég tel mig vera það sem kallað er að vera vinstri sinnaður. Ég vil samfélags eign á helstu stoðum samfélagsins til að mynda heilbrigðis-, mennta-, samgöngu-, frjarskiptakerfis. Einnig á starfsemi sem þegnunum er gerð skylda til að nota eins og tryggingar og bílaskoðun að vera í ríkiseigu.

Vinstri stefnunni á einnig að fylgja andi sanngirni sem kemur fram í almennum jöfnuði til tækifæra í lífinu og samvinnu þeirra sem í samfélaginu búa. Sá mikli ójöfnuður sem komið var á árin fyrir hrun kom til að mynda fram í óverðskulduðum launum sumra bankastarfsmanna og hefði maður ætlað að ef eitthvað hefði lærst af hruninu væri það að þessi ofurlaun hafi ekki skilað til ætluðum árangri fyrir utan hvað þau eru ósanngjörn.

Ég er algerlega forviða á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar eða ætti ég að segja viðbragðaleysi við þessum fréttum af fyrirhugðu bónus kerfi hjá nýju bönkunum. Þetta ætti í raun að hleypa öllu upp í loft og að sjálfsögðu að vera stoppað.

Af hverju fá sumir bónusa ef þeir vinna vinnuna sína vel. Ég veit ekki til þess að ræstingarfólk fái bónusa ef það skúrar vel.

Svo má minna á að bankarnir væru ekki starfandi ef ekki væri fyrir það fé almennings sem lagt var í þá í hruninu. Það er verið að greiða bónusa með peningunum okkar.


Enn tími til að kjósa

Nei sýnir fram á að almenningur á Íslandi getur gripið inn í ef þeim þykir valdhafarnir fara út af sporinu.Þetta setur þrýsting á samninganefnd Breta og Hollendinga að semja af sanngjörnum hætti því þótt íslenska þingið samþykki samninginn þá getur þjóðin aftur gripið inn í, og ég spyr hér, er það slæmt?
Einnig skekur þetta í alheimskapítalismanum sem vill gera allt til þess að almenningur fái sem minnst að taka þátt í ákvarðanaferli þjóða.
Þetta er okkar fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla og við ættum bara að taka það með okkur inn í framtíðina sem jákvætt er við hana. Hún er ekki fullkomin en það gengur bara betur næst og er vonandi bara fyrsta skrefið í meiri lýðræðisátt hér á landi.
Við gerum bara betur næst en það hefði verið gaman ef Íslendingar hefðu nú getað sameinast um eitthvað frekar en að fara í fílu hver í sínu horni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband