26.1.2009 | 20:05
Ræða bónda á mótmælum
Bændur eru ekki undanskildir í því skelfingarástandi sem nú ríður yfir. Og erum við því nokkrir komnir hingað til þess að sýna hug okkar í verki.
Í mjólkurframleiðslu hefur mikil og dýr samþjöppun átt sér stað og því eru mörg þeirra 600 kúabúa sem eru á Íslandi því mjög skuldsett.
Sauðfjárræktin hefur um langan tíma verið skammtaðar smánar tekjur en þar innan um eru einnig bændur sem hafa verið að stækka og nútímavæða bú sín og skulda mikið.
Mörg þessara búa skulda í erlendri mynt og því hafa skuldir þeirra vaxið gríðarlega eftir hrun bankanna. Nú er því svo komið að um 40% þeirrar mjólkur sem framleidd er á Íslandi er framleidd á kúabúum sem eru við hættumörk eða eru orðin tæknilega gjaldþrota.
Það er auðsýnt að við þessar aðstæður verður ekki unað. Ef búgreinarnar eiga að geta haldið áfram eðlilegum rekstri og séð landinu fyrir jafn miklum hluta fæðunnar og hingað til verður ríkisvaldið að koma að málum með einhverjum hætti. Það væri ágætis byrjun að lækka vexti um svona 10-12 %.
Stór hluti bænda á ekki eftir að hafa efni á að kaupa sér áburð í vor. Það hefur þær afleiðingar í för með sér að það verður framleitt minna af landbúnaðarafurðum á næsta ári. Minni afurðir þýða minni atvinna, minna matvælaöryggi og neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn. Þetta eru blákaldar staðreyndir sem ríkisstjórnin horfist ekki í augu við. Það eina sem gert hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar hingað til er einhliða riftun búvörusamninga. Sú vísitölutenging sem voru í samningunum voru hámarkaðir við 5,7%. Það dugir skammt í 20% verðbólgu.
Það fáránlegasta við þetta allt saman er svo að eina hreyfingin á Alþingi nú varðandi landbúnaðarmál er að enn og aftur hefur hið umdeilda matvælafrumvarp verið lagt fram.
Ef þetta frumvarp nær fram að ganga verður leyfður innflutningur á hráu kjöti til Íslands. Slíkur innflutningur er stórhættulegur heilsu okkar sérstæðu dýrastofna. Hérlendis fyrirfinnast fáir af þeim dýrasjúkdómum sem herja á önnur lönd. Einangrun íslensku húsdýranna í 1100 ár gerir það að verkum að þau hafa enga mótstöðu gagnvart þessum sjúkdómum og farið gæti fyri þeim eins og indjánum Suður-Ameríku þegar hvíti maðurinn steig þar fæti og þeir stráféllu vegna innfluttra sjúkdóma. Ef skæður dýrasjúkdómur myndi herja á landið myndi það hafa skelfileg efnahagsleg áhrif í för með sér.
Annað mikilvægt atriði er markaðsvernd íslenskra búvara fyrir neytendur. Ég segi fyrir neytendur vegna þess að íslenskur landbúnaður er nauðsynlegur til að stuðla að matvælaöryggi fyrir íslenska þjóð og er atvinnuskapandi. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við búum á klettaeyju í miðju Atlandshafi og getum ekki leyft okkur að treysta eingöngu á innflutt matvæli. Ég minni bara á þegar Bónus auglýsti yfirvofandi vöruskort í haust seldust allar frystikistur upp og fólk fór að hamstra mat.
Þess má einnig geta hér að bæjarstjórn Akureyrar sem saman stendur af Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni, bæjarstjórn þessa mikla matvinnslubæjar skilaði ekki inn umsögn um frumvarpið og hefur ekki mótmælt því á nokkurn hátt. Þrátt fyrir að lögleiðing þess gæti haft afdrifarík áhrif á atvinnulífið á Akureyri.
Þegar bændur standa svo höllum fæti sem og samfélagið allt þá er matvælafrumvarpið eina framlag ríkisstjórnarinnar til málanna. Þeir hafa jú mælst til þess við bankanna að veita frest á afborgunum af lánum bænda en það er bara frestur, engin lausn. Ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar er því algert. Bágur efnahagur bænda er ekkert nýtt fyrirbæri. Framkoma ríkisvaldsins hefur verið með þeim hætti í garð sauðfjárbænda að nýliðun er nánast engin í greininni og meðalaldur sauðfjárbænda er kominn í 58 ár. Nútíma íslendingar sætta sig ekki við þau kjör sem sauðfjárbændum er boðið upp á. Mér er spurn er það virkilega ætlun ríkisvaldsins að ganga af þessari atvinnugrein dauðri.
Það er kannski ekki við miklu að búast þegar að Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur farið með völdin í þessu landi um langan tíma er haldinn það mikilli firringu að slagorð þeirra á heimasíðu flokksins er ennþá Nýir tímar á traustum grunni".
Helsta hlutverk ríkisstjórna er að skapa þegnum sínum öruggt og stöðugt umhverfi, skapa fjölskyldum sómasamleg lífsskilyrði. Hér hefur ríkisstjórn Íslands brugðist algerlega. Og komið er í ljós að hagsæld undanfarinna ára var blekkingin ein. Fjárhagslega öryggið var blekking og matvælaöryggi okkar er blekking.
Við framleiðum ekki nema tæplega helming þeirra matvæla sem við neytum. Ef að lokast myndi fyrir innflutning til Íslands af einhverjum ástæðum t.d. vegna farsótta eða efnahagslegs hruns, duga matvælabirgðir landsins ekki nema í tvo og hálfan mánuð. Og samkvæmt samtali mínu við starfsmann almannavarna tjáði hann mér að þeim tíma liðnum værum við búin að éta hreindýrin líka. Þessi tími er væntanlega mun styttri vegna þess að bændur myndu á einhverjum tímapunkti fara að hugsa meir um sitt nærumhverfi og hætta að láta afurðir frá sér.
Kannski er þetta dramatísk umræða en það þótti einnig dramatísk og kjánaleg umræða fyrir fáeinum mánuðum þegar rætt var um að hið íslenska bankakerfi stæði á brauðfótum. Ríkisstjórnin sagði alla kjána sem héldu því fram og eyddi skattfé okkar í að ferðast um heiminn til þess að sannfæra umheiminn um að hið íslenska efnahagsundur væri sko alls engin vitleysa. Kæru félagar við erum væntanlega sammála um að það er betra að búa við tryggt matvælaöryggi.
Það er hægt ef vilji er fyrir hendi.
Við landbúnað og afleidd störf af honum starfa um 10.000 manns, nánast eins margir og eru atvinnulausir um þessar mundir. Ef við tvöföldum framleiðsluna þá er hægt að búa til fjölda starfa.
Tökum grænmetisframleiðsluna sem dæmi. Við framleiðum um 40% af því grænmeti sem við neytum. Við þá framleiðslu starfa um 900 manns fyrir utan þau fjölmörgu afleiddu störf sem greinin skapar. Ef við ákveddum að tvöfalda þá framleiðslu gætum við búið til ámóta mörg störf til viðbótar. Þarna er til dæmis tækifæri fyrir Húsvíkinga að reisa sér vistvæna stóriðju.
Varðandi hinn hefðbundna landbúnað er aðstaða til aukinnar framleiðslu fyrir hendi, húsin eru til, jarðnæðið er til, kunnáttan er til og mannskapurinn er til. Eftir hverju í andskotanum erum við að bíða.
Ég legg til að hér segjum við stopp við vitleysunni og krefjumst þess að matvælafrumvarpið verði tekið af dagskrá, ríkisstjórnin segi strax af sér og boði til kosninga hið allra fyrsta.
Hefjumst strax handa við að byggja upp nýtt og betra samfélag.
Áfram Ísland!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:08 | Facebook
Athugasemdir
Verðum við ekki fyrst að sjá til þess að einhver hafi efni á að kaupa góssið
Jón Aðalsteinn Jónsson, 26.1.2009 kl. 20:39
Ef þú átt við að hvort einhver hafi efni á að kaupa íslenska matvöru. þá er það að byrja á vitlausum enda því að enginn gerir neitt án þess að næra sig. Það er nauðsynlegt hverri sjálfstæðri þjóð að vera sjálfbær um mat. Nú er efnahagsástand heimsins enn að versna og þá er hver þjóð sjálfri sér næst.
Guðbergur Egill Eyjólfsson (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 22:15
Gott hjá þér, Guðbergur. Við höfum alltaf vitað að´fólkið í landinu þarf á okkur að halda en það eru allt of margir sem vilja ekki skilja til hvers við erum að vinna. Svo mættu þeir sem allt þykjast vita, hugsa til þess að allir sem framleiða matvæli, hafa rétt á því að éta sjálfir, hvar sem þeir búa í heiminum. Kapítalismanum er nákvæmlega sama um það. Og kratar skilja náttúrulega aldrei neitt annað en eigin veski.
Sigríður Jónsdóttir (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 12:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.