Bændabylting ?

Í hinu nýja fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar boðar ríkisstjórnin einhliða riftun á búvörusamningum til bænda. Ríkisstjórnin ætlar að fella niður þá vísitölutengingu sem bundin er í búvörusamningum. Þetta þýðir, ef verðbólguspár ganga eftir, skerðingu upp á 9 - 10 prósent. Þetta er skerðing á tekjum til bænda sem nemur 700 - 800 milljónum.

Bændur eru margir hverjir í mjög slæmri stöðu og þá helst þeir sem yngri eru og þeir sem staðið hafa í framkvæmdum á jörðum sínum. Misjafnt er ástandið eftir búgreinum. Kúabændur hafa margir hverjir staðið í miklum framkvæmdum og kvótakaupum og skuldar greinin um 35 milljarða. Þessir 35 milljarðar skiptast niður á um 700 bú. Sum þeirra eru næsta skuldlaus en önnur þeim mun skuldsettari. Kúabóndi einn sagði á dögunum, að honum hefði dottið í hug að hætta, ganga bara í burtu, því að hann sæi hvort eð er ekki fram á að geta nokkru sinni borgað af búi sínu.
Sauðfjárbændur eru í nokkuð annarri stöðu hvað skuldsetningu varðar en hafa þeim mun lægri tekjur. Sú grein átti reyndar í krísu fyrir kreppu þar sem meðalaldur sauðfjárbanda er 58 ár og fer hækkandi. Í sauðfjárræktinni er greininlega eitthvað mikið að, þar sem lítil sem engin nýliðun á sér stað. Ungt fólk sættir sig greinilega ekki við þau kjör sem sauðfjárbændum er boðið upp á.
Nú ætlar ríkisstjórnin enn frekar að herða að þessum greinum með hinu nýja frjárlagafrumvarpi.
Eiga bændur að láta bjóða sér einhliða samningsrof ríkisstjórnarinnar? Eiga bændur að grípa til einhverra aðgerða? Eiga þeir að beita frönsku leiðinni og dreifa skít um götur Reykjavíkur? Eiga þeir að hætta að borga af lánum sínum og að framleiða matvæli? Sú hætta er fyrir hendi ef þrengir frekar að, að fjöldi bænda fari á hausinn.

Í pistli sem formaður Landsambands kúabænda skrifaði á heimasíðu landsambandsins segir hann um 40 prósent allrar mjólkur á Íslandi koma frá kúabúum sem eru skuldsett að eða yfir hættumörkum.
Með þessum samningsrofum sem fjárlagafrumvarpið felur í sér, er stórlega vegið að matvæla öryggi þjóðarinnar. Við Íslendingar framleiðum ekki nema um helmingi þess matar sem við neytum. Matarbirgðir landsins duga ekki nema í um tvo og hálfan mánuð, það fer eftir árstíðum.
Einnig er uggur í bændum vegna Evrópusambandsumræðunnar. Bændur í heild sinni færu mjög halloka ef af inngöngu Íslands yrði. Svína- og kjúklingarækt leggðist af og öll önnur landbúnaðarframleiðsla drægist saman. Þetta er reynsla sænskra og finnskra bænda. Um sex þúsund manns starfa við landbúnað og matvælaframleiðslu á Íslandi í dag og ætla má að við bætist 3000-4000 störf sem eru afleidd störf af matvælaframleiðslunni. Ríkisstjórnin er enn frekar að ógna afkomu þessa fólks með einhliða riftun búvörusamninga, lögleiðingu umdeilds matvælafrumvarps og daðri við Evrópusambandið.

Væri ekki nær að snúa vörn í sókn og efla landbúnaðinn og fá jákvæða byltingu í stað neikvæðrar. Það er jú nauðsynlegt hverri sjálfstæðri þjóð að vera sjálfri sér nóg hvað fæðu snertir. Atvinnuleysi eykst nú dag frá degi og umræðan snýst um nýsköpun og um það að mennta eigi fólkið til frekari afreka. En það eru ónýtt tækifæri til staðar sem hægt væri að nýta hér og nú. Þau eru kannski ekki jafn fín og nýmóðins og nýsköpun eða æðri menntun en við erum í vandræðum og verðum að taka því sem býðst.
Eins og fyrr segir framleiðum, við ekki nema um helming þeirra matvæla sem við þörfnumst. Við framleiðum ekki nema um 40 prósent af grænmetinu sjálf. Þarna er felsast mikil tækifæri. Um 900 manns starfa við að framleiða innlenda grænmetið. Ef vilji er fyrir hendi er hægt að tvöfalda þessa framleiðslu og um leið skapa nokkurhundruð störf. Þarna er tækifæri fyrir Húsvíkinga að byggja upp sjálfbæra stóriðju. Þeir gætu byrjað strax á morgun í stað þess að bíða eftir álbræðslu sem kemur kannski aldrei. Hægt væri að skapa fjöldann allan af störfum með eflingu landbúnaðarins í heild sinni.

Hægt er að taka ákvörðu um það að fullvinna meira af þeim sjávarafurðum sem við seljum úr landi. Frystihúsin eru til og fólk vantar vinnu. Er ekki nær að við myndum vinna fiskinn okkar sjálf í stað þess að veita hundruðum ef ekki þúsundum Breta þá vinnu, þegar okkur sárvantar störfin sjálf.
Nú er tími aðgerða. Við verðum að nýta þau tækifæri sem við höfum og það strax. Hvað er ríkisstjórnin að gaufa? Við verðum að losna við þessa þurrpumpulegu stjórnmálamenn sem vilja bara tryggja eigin stöðu og sygla okkur aftur inn í það gamla kerfi sem er þeim svo þægilegt. Losna við þetta kerfi sem kom okkur almenningi í þá slæmu stöðu sem við erum nú í.
Við þurfum fólk við stjórnvölin sem er ekki of fast í formi kerfisins og getur komið með nýjar hugmyndir til þess að skapa hið nýja Ísland.

Byrtist áður í Fréttablaðinu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Sigríður Bjarnadóttir

Heyr, heyr.  Bændur láta allt of lítið í sér heyra.

Halla Sigríður Bjarnadóttir, 5.1.2009 kl. 11:01

2 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Mjög góð grein að mínu áliti. Þetta ESB.kjaftæði dregur kjarkinn úr fólki að stofna til nýra atvinnutækifæra í landbúnaði.

Ragnar Gunnlaugsson, 5.1.2009 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband