15.11.2008 | 12:24
Atriði til úrbóta
Mér líður eins og ljóni í búri. Allt er á hreyfingu, hreyfingu niður á við. Mér líður eins og ljóni í búri vegna þess að ég hef næga orku til athafna en finns ég ekki vera í aðstöðu til að gera nokkurn skapaðan hlut. Ef nú væri Sturlungaöld þá færi ég út og hyggi mann og annan. Þeir eru margir sem ættu það skilið. En þannig eru nú ekki lausnir samtímans og því sit ég hér og skrifa. Skrifa niður þau atriði sem að mínu áliti er nauðsynlegt að framkvæma og gætu komið þjóðinni til góða. Þjóðinni sem ég ann. Ég er reiður. Ég er reiður vegna þess að ráðamenn þjóðarinnar hafa komið því þannig fyrir að það virðist allt stefna í að ég geti ekki boðið börnum mínum það sama og mér var boðið í æsku, hafi ekki sömu tækifæri.Ég vil gera það sem ég get til þess að koma í veg fyrir það.
Hér á eftir koma tillögur sem væru ágætis byrjun að nýrri sókn. Því sókn er besta vörnin.
Fyrir það fyrsta þarf að auka kvótann um 20.000 tonn og útdeila þeim á smábáta víðsvegar um landið. Við þurfum að nýta frystihúsin og mannaflann sem best og fara að fullvinna allan þann fisk sem við getum í stað þess að senda hann óunninn úr landi. Auðlindagjaldið gæti verið ódýr fiskur fyrir landsmenn. Þetta er atvinnuskapandi aðgerð og hægt að framkvæma hana strax.
Við þurfum að auka landbúnaðarframleiðsluna. Það bæði eykur matvælaöryggi þjóðarinnar sem er í molum og skapar atvinnu, bein og afleidd störf. Nú framleiðum við ekki nema sem nemur 50% þeirra hitaeininga sem við neytum og 60 % af öllu fersku grænmeti er innflutt. Hægt væri að stórauka grænmetisframleiðsluna. Þannig myndum við skapa atvinnu og minnka innflutning.
Fjöldinn allur af smiðum og byggingarverkamönnum er að verða atvinnulaus og hægt væri að skapa einhverjum þeirra verkefni við að byggja gróðurhús fyrir aukna grænmetisrækt og byrgðarstöðvar fyrir korn. Í landinu eru ekki til byrgðarstöðvar fyrir korn nema sem nemur þriggja til fjögurra vikna forða sem er vítavert gáleysi af hálfu stjórnvalda.
Margir bændur eru í þeirri stöðu að hafa ekki efni á að ráða vinnuafl eins og þeir hafa gert undanfarin ár. Þarna er annað tækifæri til þess að búa til störf. Ríkið borgar launin í samræmi við atvinnuleysisbætur og bóndinn borgar með mat og í einhverjum tilfellum húsnæði því sá fjöldi fólks sem er við það að missa húsnæði sitt fjölgar ört.
Létta þarf undir með grænmetisbændum, selja þeim raforku á sambærilegu verði og stóriðjunni. Það er hægt að gera strax.
Frysta þarf verðtrygginguna. Það er hægt að gera strax.
Það allra mikilvægasta er að harðneita þeim skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem eru að kafkeyra þjóðina. Það verður að lækka stýrivexti. Það er hægt að gera strax. Varla er hægt að hugsa sér súrealískari vitleysu en að hafa stýrivexti í 18 prósentustigum við þessar aðstæður. Ef ástæðan fyrir hækkun vaxtanna sé að halda fé erlendra fjárfesta í landinu er það dæmt til að mistakast. Ríkisstjórnin er búin að segja að stýrivextir eigi bara að vera háir til skamms tíma. Þetta vita fjárfestarnir einnig og hafa þess vegna enga ástæðu til þess að halda fé sínu á Íslandi. Svona fjárfestar hafa allan heiminn undir og því í ósköpunum ættu þeir ekki að fara með peningana í burtu eftir allt sem á undan er gengið. Heldur ríkisstjórnin kannski að þeir verði áfram með peningana hér vegna góðrar peningamálastefnu Seðlabankans eða vegna trausts á Seðlabankastjórninni eða jafnvel vegna þess að á Íslandi er svo góð og traust ríkisstjórn.
Ég veit með vissu að allt ofannefnt er framkvæmanlegt. Allt sem þarf er vilji og kjarkur. Til eru Íslendingar sem hafa nóg af hvorutveggja. Því miður hefur ríkisstjórnin hvorugt. Ég held að bróðurparturinn af því fólki sem situr nú í ríkisstjórninni hafi farið út í stjórnmál vegna þess að það vildi láta gott af sér leiða fyrir land og þjóð. Það besta sem að það gæti gert landi og þjóð við núverandi aðstæður, er að segja af sér og láta stjórnmál þessa lands öðrum eftir. Þá er ég að meina fyrir fullt og allt. Við erum búin að fá nóg af ykkur.
Áfram Ísland!
Guðbergur Egill Eyjólfsson
Höfundur er Bóndi og nemi við Háskólann á Akureyri
(Áður birt á Visi.is 14.11.2008)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.