11.10.2012 | 13:11
Fjöldi ferðamanna
Þór Saari hefur valdið fjaðrafoki hjá ýmsum með umræðu sinni um að ferðamenn væru orðnir of margir á Íslandi. Sitt sýnist hverjum og er pistlahöfundi Viðskiptablaðsins mjög svo ósáttur við þessi ummæli Þórs http://www.vb.is/skodun/77056/.
Þar hjólar pistlahöfundur frekar í Þór sjálfan og reynir að draga úr trúverðuleika hans eins mikið og hann getur. Einnig fer hann út í að tala um peningalegt verðgildi ferðaþjónustunnar fyrir land og þjóð. Er í raun að segja að ekki megi gagnrýna fjölda ferðamanna vegna þess hve miklu þeir skili í ríkiskassann. Þessu er eins farið með stóryðjuna og nánast hverja þá auðlind sem við eigum. Peningarnir fyrst svo förum við að spá hverju við höfum kostað til til þess að öðlast þá.
En jæja. Fjöldi ferðamanna. Er hann of mikill? Ef ekki, hvenær er hann orðinn of mikill? Í einni milljón, tveimur eða tíu? Það hlýtur að mega velta þessu fyrir sér og í raun nauðsynlegt.
Nær allir eru þó sammála um að bæta verði aðstöðu við ákveðna staði á landinu til þess að þeir skemmist ekki og þar með viðurkennt að ferðamenn séu orðnir of margir við núverandi aðstæður á þessum stöðum.
Varðandi hækkun virðisauka í greininni væri að mínu mati hyggilegra að framkvæma hana í þrepum eða með meiri fyrirvara en það er samt engin ástæða til þess að ein af mikilvægustu atvinnugreinum samfélagsins, sú grein sem vex hvað hraðast og með hvað mesta vaxtarmöguleika greiði ekki skatt á við aðrar atvinnugreinar.
Gæti kannski verið ágætis leið til þess að hægja aðeins á vextinum til þess að undirbúa landið betur fyrir æ meiri fjölda ferðamanna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta eru áhugaverðar og í raun nauðsynlegar pælingar eins og þú nálgast þetta, GEE. Í raun hygg ég að í því alþjóðasamfélagi, sem við lifum og hrærumst í og viljum gera áfram, sé í reynd ómögulegt að hafa mikil áhrif á það hvort ferðamönnum fjölgar eða fækkar nema með aðgerðum, sem væru annað tveggja siðlausar eða brot á alþjóðlegum samningum og lögum. Hitt er svo annað mál, hvort við getum stýrt meira umferð ferðafólks, hvert álag af umferð þess er á viðkvæma staði og svo er það eilífðarspurningin um gjaldtöku. Nú þekkjum við sem höfum ferðast eitthvað að marki um heiminn vel gjaldtöku vegna aðgangs að slíkum stöðum. Við værum ekkert að finna upp hjólið, þótt við tækjum slíka gjaldtöku upp á einhverjum tilteknum svæðum, þar sem brýn þörf er bæði á fjárfestingu í aðbúnaði og stýringu álags. Hitt er svo aftur á móti stóra spurningin hvort þær fullyrðingar forsvarsmanna ferðaþjónustufyrirtækja að slíkt myndi þýða nánast lokun fyrir streymi ferðafólks til landsins, standist skoðun. Verstur fjárinn er hvað erfitt er að ræða þetta án þess að fólk fari út í tilfinningaþrungnar umræður, sem hvergi koma rökfræði við.
E (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 20:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.