30.3.2010 | 11:02
Landið eitt kjördæmi, landsbyggðinni til heilla?
Flutningsmenn frumvarpsins reyna að gera grein fyrir væntanlegri gagnrýni á eftir farandi hátt. Þeir gallar sem nefndir hafa verið á því að landið verði eitt kjördæmi eru þeir helstir að þingmenn verði of fjarri kjósendum sínum samfara minnkandi áhrifum dreifbýlisins hvað fjölda þingmanna varðar (Þingskjal 809, 2009-2010). Þarna gera flutningsmennirnir strax ráð fyrir minnkandi hlut dreifbýlisþingmanna ef frumvarpið nær fram að ganga. Flutningsmenn benda hins vegar á að vilji stjórnmálaflokkar sækja kjörfylgi vítt og breitt um landið leggja þeir framboðslista sína vitaskuld fram á þann veg að þar verði góð breidd fulltrúa þéttbýlis og dreifbýlis (Þingskjal 809, 2009-2010). Með þessari athugasemd er skírskotað til vilja stjórnmálaflokka og þeim boðin sú ábyrgð að ákveða sjálfir hvort þeir tefli fram fólki af fámennum svæðum í stað þess að tefla fram fólki eingöngu úr þéttbýli þar sem atkvæðamagnið er.
En flutningsmenn bjóða upp á mögulega leið til þess að koma í veg fyrir algjöra einokun þéttbýlisins. Til að tryggja virkt lýðræði við val fulltrúa flokkanna á framboðslistum kemur einnig til álita að í kosningalög yrðu fest ákvæði í þá veru. Má þar nefna ákvæði um persónukjör, prófkjör stjórnmálaflokka, auknar heimildir kjósenda við endurröðun frambjóðenda á framboðslistum og að vægi þeirra breytinga yrði aukið umtalsvert, hugsanlegt frelsi kjósenda til að velja einstaklinga á fleiri en einum framboðslista og fleiri skyld atriði. Ekki er með frumvarpi þessu tekin afstaða til þess hvernig aukin áhrif kjósenda á framboðslista og aukið persónuval í kosningum verða tryggð í kosningalögum. Þau álitaefni ber að fara yfir og ákvarða við nauðsynlega endurskoðun kosningalaga verði frumvarp þetta samþykkt (Þingskjal 809, 2009-2010).
Það er álitamál hvort þessi úrræði um virkt lýðræði myndu koma til með að tryggja ákveðinn fjölda landsbyggðarþingmanna. Ef fest væri í lög að ákveðið hlutfall framboðslista þyrfti að dreifast með einhverjum hætti um landið þá væri í raun verið að búa til ný kjördæmi sem væri síðan enn og aftur hróflað við ef meira frelsi yrði veitt í átt til persónukjörs þar sem kjósendur gætu raðað frambjóðendum eftir sínum hag á listann við kosningar. Gætu til að mynda valið alla landsbyggðarþingmenn af listunum.
Þarna er mörgum spurningum ósvarað enn. En það er ljóst að þeir sem flytja frumvarpið telja að með ákveðinni svæðisbundinni kjördæmaskipan sé hætta á því að þingmenn verji sitt svæði öðrum fremur hvort sem það er kallað sérhagsmunapot eða svæðisbundin hagsmunagæsla. Þetta er undirstrikað með enn einni athugasemdinni í þá áttina. Núverandi skipan mála þykir draga úr samkennd þjóðfélagsins og styðja gæslu sérhagsmuna á kostnað heildarhagsmuna. Með því að gera landið að einu kjördæmi næst fullkominn jöfnuður milli kjósenda þannig að misvægi atkvæða og um leið mannréttinda er ekki lengur til staðar (Þingskjal, 2009-2010). Hér vaknar enn ein spurningin um hvort heldur er lýðræðislegra að meirihluti landsmanna sem býr á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni séu ráðandi afl í samfélaginu í krafti stærðar sinnar eða að vægi fjölbreytileikans fái að ráða með jafnara vægi valdsins dreift um allt land. Annað er að það er landsbyggðin sem hefur átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum sem segir kannski að hagsmunagæsla landsbyggðarinnar hafi ekki verið nógu öflug. Kannski hefur hið svo kallaða kjördæmapot ekki verið nógu kröftugt.
Þess ber síðan að geta að fyrsti fluttningsmaður frumvarpsins er Björgvin G. Sigurðsson. Maður sem hefur það markmið helst að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Ef honum tækist það þá hlýtur það að verða hans fyrsta verk að berjast fyrir jöfnu vægi atkvæða innan Evrópusambandsins til þess að auka samkennd innan sambandsins og koma í veg fyrir allt svæðisbundið sérhagsmunapot.Guðbergur Egill Eyjólfsson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
http://axelthor.blog.is/blog/axelthor/entry/917289/
Axel Þór Kolbeinsson, 30.3.2010 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.