13.2.2010 | 13:07
Framtíðarlandið
Nú á þessum ólgu tímum fær maður oft á tilfinninguna að það viti enginn hvert skuli stefna. Ríkisstjórnin er að reyna að bjarga því sem bjargað verður eftir skemmdarverk Sjálfstæðisflokksinns og hans undirlægja undangenginna ára. En hvert stefnir núverandi ríkisstjórn? Hefur hún eitthvert lokatakmark? Einhverja heilsteypta stefnu varðandi hvers lags samfélag eigi að taka við af kapítalismanum sem verið hefur við líði? Hafa þeir flokkar sem ríkisstjórnina skipa einhverja heilsteypta mynd af því samfélagi sem þau vilja skapa? Hafa þeir sömu mynd í huga? Ég er ekki viss? Vegna þessarar óvissu minnar um hvort ríkisstjórnin eða flokkarnir sem hana skipa hafi slíka heilsteypta framtíðarsýn ætla ég hér að koma með mínar eigin hugmyndir í því máli þá mynd sem ég hef í huga mér af íslensku samfélagi framtíðarinnar og hvert ég vil að ríkisstjórnin stefni. Ég byrja lýsingu mína í nútímanum en hverf svo nokkra áratugi fram í tímann þegar við höfum komið samfélaginu í mannvænna horf, í samfélag sem ég vildi búa mér og fjölskyldu minni.
Hér á landi er þokkalega góð skipting á hausti, vetri, vori og sumri. Það er ekki of heitt, ekki of kalt og nóg af rigningu og sól. Landið og hafið um kring er hreint, ómengað og fullt af fiski. Hér er allt sem vestrænt nútíma ríki hefur upp á að bjóða. Góðar samgöngur, heilbrygðisþjónusta, menntakerfi og nægt húsnæði einhverja áratugi fram í tímann. Fyrst landið hefur upp á allt þetta að bjóða lítur út fyrir að eingöngu þurfi að lappa upp á innviði samfélagsins svo að dæmið gangi upp. Það er eingöngu fyrir heimsku heimamanna að landið er ekki hreint og klárt fyrirmyndarríki, því hér er allt til alls.
Við búum á eyju út í miðju Atlandshafi sem er fullkominn staður fyrir fyrirmyndarríki. Eyjan sjálf er miklu stærri en íbúafjöldi hennar segir til um, alla vega saman borið við flesta byggilega staði annarstaðar í heiminum.
Hér er mögulegt að framleiða alla þá matvöru sem þjóðin þarfnast nema ef væri sum krydd og sykur en íbúarnir hafa dregið úr sykurneyslu og farið að neyta í æ ríkari mæli innlendra krydda í stað innfluttra. Bílar eru innfluttir en þó ekki margir ár hvert þar sem íbúarnir hugsa vel um bílana sína og alla jafna kaupa þeir ekki bíl nema á tíu til tuttugu ára fresti. Flestir bílarnir ganga fyrir rafmagni en nokkur hluti fyrir metangasi. Allar landbúnaðar vélar eru drifnar af metangasi sem bændurnir framleiða sjálfir úr úrgani skepnanna og er þetta gas einnig notað á fiskiskipaflotann. Þannig er hinu mengandi metangasi brennt upp og nýtt um leið sem eldsneyti. Þessi fyrirhyggni íbúanna kemur í veg fyrir þann vanda sem hátt olíuverð skapar þjóðum vegna duttlunga hins alþjóðlega viðskiptaumhverfis og stórbætir um leið fæðuöryggi þjóðarinnar.
Allt kjöt, korn, grænmeti og ávextir eru framleiddir á eyjunni og einnig framleitt til útflutnings vegna þess að það eru ekki allar þjóðir jafn heppnar og Íslendingar að geta framleitt nægan mat fyrir sig og sína.
Húsin eru hituð upp af heitu vatni sem kemur sjóð heitt upp út jörðinni. Heita vatnið er notað til húshitunnar en gufan er notuð til upphitunnar gróðurhúsa, þar sem grænmeti og ávextir eru framleiddir, en einnig er gufan notuð til annarrar orkuframleiðslu.
Það eru nær engin félagsleg vandamál því Íslendingar vita að það er betra að taka á vandanum eins fljótt og auðið er heldur en að láta slíkan málaflokk danka og vefja upp á sig. Eiturlyf eru vart þekkt lengur því það er búið að útrýma þörfinni fyrir þau. Auðvitað eru einhver vandamál, íbúarnir eru jú eftir allt mennskir. En á þessum málaflokki er tekið á sem mikilvægasta málaflokki þjóðarinnar. Það kemur til vegna þess að Íslendingar hafa áttað sig á að hamingja einstaklinganna er það mikilvægasta. Þeir hafa áttað sig á því að það sem gerir manninn hamingjusaman sé það að vera sáttur. Þjóðin hefur lært af reynslunni að það að hafa í sig og á, þak yfir höfuðið, góða heilsu og síðast og ekki síst að njóta vináttu og fjölskyldutengsla er það sem gerir manninn hamingjusaman. Þetta er þó nokkuð en til eru þjóðir sem ekki eru sáttar þrátt fyrir allsnægtir og eru enn leitandi að hætti neytandans.
Það eru góðir vegir um alla eyjuna, hvar sem þeirra er þörf og þó nokkrir flugvellir. Það er nóg af skólum og sjúkrahúsum. Bæði menntun og heilbrigðisþjónusta er íbúunum að kostnaðarlausu. Þetta er svona jafnvel þótt íbúarnir vinni minna en þeir gerðu áður. Er það gerlegt þar sem Íslendingarnir hafa áttað sig á því að hamingjuna er ekki hægt að kaupa með peningum og því hafa þeir hætt að eyða tíma sínum í að fjármagna allskyns dót sem áður var elst við, annað hvort í hamingjuleit eða til þess eins að stærra sig gagnvart náunganum. En Íslendingar eru orðnir þroskaðri en það sem þjóð að þeir nýti ekki þann stutta tíma sem þeir hafa á þessari jörð betur en í óþarfa vinnustundir fjarri fjölskyldum sínum.
Íslendingar þurfa ekki að vinna jafn mikið og áður því þeir hafa látið af lífstíl neytandans, þeir eru ekki lengur þrælar auglýsingamennsku kapítalismans. Þrátt fyrir þetta á hver fjölskylda íbúð og einn til tvo bíla. Það er ekki bara betra fyrir þá sjálfa heldur einnig náttúruna. Ef fleiri þjóðir tækju sér Íslendinga til fyrirmyndar hvað þetta varðar, yrðu áhrif hlýnunar jarðar minni en í stefnir og þar með betra fyrir heildina.
Eins og fyr segir þá eiga allir sitt húsnæði. Ekki er þar með sagt að allir eigi eins húsnæði eða jafn dýrt. En öllum er gert kleift að eignast sitt eigið húsnæði í gegn um sérstakann lánasjóð í eigu ríkissins. Reyndar eru allar helstu fjármálastofnanir nú í eigu ríkisins og starfa bankarnir nú eingöngu í þágu þjóðarinnar og styðja bæði við einstaklinga og fyrirtæki. Íslendingar lærðu af byturri reynslu að bankar í einkaeigu hafa hag eigenda sinna fremstann í forgangsröðinni og glæframennska og mistök slíkra stofnanna geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir hinn almenna borgara.
Íslendingar hafa enn sína gömlu góðu krónu og hafa sett upp ákveðnar reglur til þess að geta haldið sínum eigin gjaldmiðli. Reglurnar eru settar með það að markmiði að hægt sé að stunda sanngjörn viðskipti á milli landa og koma í veg fyrir að einstaka stórir fjármagnseigendur geti stundað fjárglæfraspil með gjaldmiðil heillar þjóðar. Íslendinar hafa nefninnlega borið gæfu til að endurskilgreina frasann frelsi í fjármálum. Þeir hafa sett í forgrunn frelsi almennings en ekki einstaka fjármagnseigenda. Hinu svo kallað frelsi í viðskiptum er ekki lengur gert kleift að hefta frelsi almennings til dæmis með því að hafa áhrif á gengi gjaldmiðilsins með spákaupmennsku og öðru slíku.
Það er löngu þekkt að þjóðir hafa sett sér upp ákveðinn fátækktarstuðu og það hafa íslendinga einnig gert fyrir löngu. En íslendingar hafa einnig sett sér viðmið á hinn endann sem þeir kalla oftækt. Þannig að íslendingar hafa sett mörk á lágmarks og hámarks lífsskilyrði. Þetta kallar kapítalisminn að hefta frelsi einstaklingsins en reynslan hefur kennt íslendingum að þegar einstaklingur á orðið of mikið fer hann að ganga á frelsi annara og því þurfti að finna þarna ákveðið jafnvægi.
Íslendingar tóku ekki upp þennan lífstíl upp úr þurru eða af einskærri skynsemi. Þetta gerðist í raun eins og í ævintýri. Þessi litla þjóð, íslendingar, héldu að þeim væru allir vegir færir og töldu sig svo ríka að á endanum fóru þeir fram úr sjálfum sér og töpuðu öllu nema landi sínu. Litlu en samt svo stóru eyju. Hún var það eina sem þeir ekki misstu og sem betur fer því hún var það eina sem þeir í raun þörfnuðust.
Þessi þjóðfélagsbreyting kom ekki í einu vettvangi og ekki baráttulaust. Sumir Íslendingar vildu ekki segja skilið við lífsstíl neytandanns og hið alþjóðlega kapítalíska hagkerfi vildi alls ekki missa Íslendinga sem neytendur. Kannski ekki endilega Íslendinga sjálfa en hið alþjóðlega kapítalíska hagkerfi vildi ekki missa Íslendinga út úr kerfinu. Þeir sem stjórna hinu alþjóðlega kerfi vildu ekki að Ísland kæmist upp með að vera vel heppnað dæmi sem gæti komist vel af án neytendakapítalisma. En einmitt vegna þess hve Íslandi hefur gengið vel í hinu nýja sjálfbæra hagkerfi þá hafa aðrar þjóðir tekið sér landið til fyrirmyndar. Ekki margar en þeim fer fjölgandi. Þetta er eilíf barátta á milli neytendalífsháttarins, sem með öllu sínu fjármagni reynir að soga sem flesta til sýn, með gylliboðum um betra líf, og sjálfbæra, nægjusama lífsmátanns.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.