Að standa á sannfæringu sinni

 

Flokkur sem hefur það á stefnuskrá sinni að standa utan ESB getur ekki staðið að því að sækja um aðild að ESB.

Hvernig á flokkurinn sem heild þá að koma fram, bæði sem umsóknaraðili og sem harður talsmaður þess að við göngum ekki í ESB. Þar með væri Vinstri hreyfingin grænt framboð búið að missa þann trúverðuleika sem hefur komið honum í þá stöðu að vera einn stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Flokkurinn hamraði á því í kosningarbaráttunni að hann væri eini heiðarlegi flokkurinn og að honum væri treystandi. Ég vona að ég geti haldið áfram að treysta Vinstri hreyfingunni grænu framboði.

Ég skora á forystufólk flokksins að standa á sannfæringu sinni um hvað er Íslandi fyrir bestu og hugsa um hvers vegna kjósendur gáfu þeim umboð til forystu. Það var ekki til þess að sækja um aðild að ESB. Ég kaus ekki Vinstri hreyfinguna grænt framboð til þess að sækja um aðild að ESB.

Það er klárlega gríðarlegt tækifæri sem okkur býðst nú til þess að mynda fyrstu alvöru vinstri stjórn á Íslandi. En hún má ekki verða of dýru verði keypt. Það er ekki þess virði að stofna til vinstri stjórnar ef það hefur í för með sér aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Látum frekar hina margklofnu Samfylkingu reyna að mynda stjórn með Framsókn sem með sínum einstaka hætti samþykkti að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið með óyfirstíganlegum skilyrðum. Þessi stjórn yrði ekki mynduð nema með fulltingi Borgarahreyfingarinnar sem er í raun jafn margir flokkar og fjöldi þingmannanna því Borgarahreyfingin skilgreinir sig ekki sem flokk. Það hefur enginn innan Borgarahreyfingarinnar hugmynd um hvaða skilyrði ættu að vera í aðildarsamningi né heldur hvað hreyfingin vill í öðrum málum. Gangi Samfylkingunni vel að koma sínum áherslum fram í þessum hópi.

Höldum okkur við þann heiðarleika sem Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur byggt upp á síðustu tíu árum og látum ekki glepjast þótt hér sé tækifæri til myndunar vinstri stjórnar. Ísland er ekkert inn í Evrópusambandinu. Ef við erum utan þeirrar stjórnar sem sækir um aðild að Evrópusambandinu þá getum við sem erum höll undir Vinstri hreyfinguna grænt framboð sameinast af krafti sem ein heild gegn þeirri ríkisstjórn sem reynir að teyma Ísland inn í Evrópusambandið.

Guðbergur Egill Eyjólfsson
Bóndi og nemandi við Háskólann á Akureyri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband